Fréttir

Þúsund spil þegar seld

Ég hef alltaf verið mikill spilamaður og man vel eftir mér að spila Útvegsspilið á sínum tíma, alveg heilmikið. Ég fór í alvörunni út í þetta til þess að geta fengið að spila það sjálfur aftur,“ segir Stefán Sigurjónsson og hlær.

Upprunalega spilið hefur gengið kaupum og sölum manna á milli á samfélagsmiðlum fyrir svimandi háar upphæðir.

„Ég náði ekki að kaupa það notað því það endaði oft í uppboðum á yfir 100.000 krónur. Þannig ég ákvað að láta slag standa og gera þetta bara sjálfur,“ segir hann. Honum þykir þó merkilegt að enginn hafi hellt sér út í það fyrr, í ljósi vinsælda spilsins. Þetta hafi þó verið gífurlega mikil vinna.

„Ég hafði samband við Hauk Halldórsson myndlistarmann sem gerði spilið upphaflega og hann var heldur betur til í þetta.“

Grafíkin var unnin út frá prentaða efninu frá 1977 sem Haukur gerði, en Stefán segir samstarfið hafa verið einstaklega skemmtilegt.

„Við vildum ekkert vera að hrófla við hans hönnun of mikið, enda listaverk út af fyrir sig,“ segir Stefán.

Mikil vinna fór í að endurnýja allan skipaflotann, vinnslustöðvar og hús.

„Spilið endurspeglar íslenska skipaflotann eins og hann er í dag. Síðan ferðaðist ég á milli sjávarplássa í rannsóknarleiðangri,“ segir Stefán.

Það hefur farið blóð, sviti og tár í að færa Íslendingum á ný þetta sívinsæla spil.

„Já bókstaflega. Við erum búnir að handsmíða um fjóra kílómetra að skipum og húsum, svona ef við myndum raða þeim saman. Guðmundur Sighvatsson hjá Trésmiðjunni Slipp tók það að sér með bros á vör, enda svo einlægur aðdáandi spilsins. Síðan tóku snillingarnir í Fangaverk á Hólmsheiði við og máluðu og pökkuðu svo spilinu. Stundum sá maður nánast eftir því að hafa ekki fengið ódýrari framleiðslu að utan. En núna þegar þetta er búið þá getur maður ekki annað en verið stoltur,“ segir Stefán.

Hann segir ákveðið spennufall að sleppa spilinu loksins frá sér.

„Líka út af þrýstingnum, fólk er orðið nokkuð æst að komast í eintak. Um leið og við tilkynntum þetta fór allt á hliðina hjá mér, síminn stoppaði ekki. Enda erum við nú þegar búin að selja þúsund spil frá því við hófum forsöluna þann 17. júní. Þannig að þú getur rétt ímyndað þér.“

Hann segist hvergi hættur í spilagerðinni og hefur hann strax hafið gerð næsta spils, sem er líka endurgerð.

„Ætli að það megi ekki segja að það sé mögulega eitthvað hættulegt á leiðinni,“ segir Stefán lúmskur.

Útvegsspilið fer í sölu á spilaborg‌.‌is frá og með morgundeginum.

Birtist fyrst hjá Fréttablaðinu: https://www.frettabladid.is/frettir/usund-spil-egar-seld/