Skip og hús eru framleidd í stórum stíl á trésmíðaverkstæði uppi á Höfða í Reykjavík og smiðurinn líklega afkastamesti húsa- og skipasmiður sem um getur.
Tilefnið er endurútgáfa Útvegsspilsins sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma og eðli málsins samkvæmt þarf þó nokkuð af skipum og enn fleiri hús í slíkt. Guðmundur Sighvatsson trésmiður er í óðaönn að smiða húsin og skipin og sennilega hefur enginn smiður smíðað jafnmörg hús og skip.
„Nei, sennilega ekki, en þau eru náttúrlega dálítið lítil.“
Hvað eru þetta mörg stykki?
„Áætlað er að smíða 144 þúsund hús og 36 þúsund skip.“
Þótt húsin og skipin séu smá eru þau smíðuð í stórvirkum vélum. Þau eru nákvæmlega eins og húsin og skipin voru í gamla spilinu, enda kannast Guðmundur vel við þau frá yngri árum. Viðurinn í þeim heitir wawa og kemur frá Afríku. Hann er heflaður og lagaður til. Síðan er sniðinn flái sem myndar þakið og stefnið og síðan er fjölda slíkra sniðinna lista safnað saman og húsin verða til hvert af öðru og svipað fyrirkomulag er með skipin.
Guðmundur er meira í því að smíða skrautlista, glugga og gereft, en er ekki óvanur því að smíða skip eða að minnsta kosti innréttingar í skip, enda á verkstæði hans á uppruna sinn í Slippnum í Reykjavík sem stofnaður var fyrir 118 árum. En þar voru viðfangsefnin stærri. Hann segir ekkert vandamál að smíða svona smágripi í þessum stórvirku vélum, enda sæi hann ekki fyrir sér að smíða þetta allt í höndunum stykki fyrir stykki.
„Nei, ég held að það sé alveg útilokað, mér myndi ekki endast aldur til þess, held ég.“
Skipin og húsin fara svo annað í málun. Um sjötíu fermetrar af timbri fara í að smíða þennan skipastól og alla þessa byggð og væri stykkjunum raðað í beina línu myndi byggðin og flotinn teygja sig langt.
„Mér reiknast til að þetta gæti verið í kringum fjórir kílómetrar.“
Það er nú töluvert langt.
„Já það eru þó nokkrar Hallgrímskirkjur.“
Birtist fyrst á vef Ríkissjónvarpsins: https://www.ruv.is/frett/2020/08/29/smidar-hus-og-skip-i-tugthusundatali