Fréttir

„Eintök af spilinu hafa sokkið með skipum“

Hið sögufræga Útvegsspil frá árinu 1977 verður endurútgefið í ár. Margir eiga góðar minningar um spilið og ganga eintök af upprunalega spilinu kaupum og sölum á netinu á tugþúsundir króna hvert stykki. Verkefnið hófst fyrir um sjö árum síðan og hönnuður spilsins, Haukur Halldórsson, tekur þátt í því.

„Hugmyndin að endurútgáfunni spratt upp frá einstökum áhuga á að spila Útvegsspilið aftur,“ segir Stefán Sigurjónsson, sem hefur starfað í auglýsingageiranum og hefur endurvakið spilaútgáfuna Spilaborg sem gaf spilið út á sínum tíma.

Ferðalagið hófst fyrir um sjö árum síðan, þegar Stefán fór að óska eftir Útvegsspilinu á netinu og sá þá að margir voru í sömu stöðu. Var fólk tilbúið til að greiða vel fyrir eintök, allt upp í 70 þúsund krónur.

Útvegsspilið snýst, eins og nafnið gefur til kynna, um sjávarútveg. Að kaupa dalla og fiskvinnslur og græða monninga. Kom spilið upprunalega út árið 1977 og var endurprentað með smávægilegum breytingum tveimur árum siðar. Árið 1981 kom út ensk útgáfa, Glopol.

Stefán setti sig í samband við Hauk Halldórsson myndlistarmann, sem hannaði Útvegsspilið, og ákváðu þeir að hefja samstarf ásamt fjölskyldu Hauks, en hann er nú kominn á níræðisaldur. Lítið gerðist þó í verkefninu um nokkurn tíma vegna anna. „Núna í sóttkvínni blésum við rykinu af þessu og settum allt aftur í gang. Viðbrögðin hafa verið mikil, sérstaklega hjá eldri kynslóðinni, og við fáum mikið af spurningum,“ segir Stefán. Vonast hann til þess að þessi áhugi smitist yfir í yngri kynslóðir.Stefán Sigurjónsson082.jpg

Í Útvegsspilinu kaupa leikmenn dalla og fiskvinnslur og græða monnínga.

Spurður um hver galdurinn við Útvegsspilið sé segir Stefán það vera hönnunina og teikningar Hauks. Þá sé spilið einnig nátengt helsta atvinnuvegi landsins og margir eigi góðar minningar. Stefán og félagar hafa einmitt verið að safna saman myndum og sögum fólks af spilinu.

„Við höfum fengið alls konar sögur. Til dæmis frá einum sem sagði að pabbi sinn hefði læst sig inni með vinum sínum einu sinni í viku til að spila og enginn í fjölskyldunni mátti koma inn,“ segir Stefán. „Ég hef frá skipstjórum að þeir hafi haft spilið um borð, stundum aðeins spilapeningana sjálfa og þá handteiknað borðið sjálft eftir minni og plastað það. Eintök af spilinu hafa sokkið með skipum.“

Margt hefur breyst í íslenskum sjávarútvegi síðan árið 1977, meðal annars tilkoma kvótakerfisins. Stefán segir að spilið muni koma út í upprunalegri mynd. En samhliða því sé verið að vinna að því með spilaprófurum að gefa út uppfærðar reglur sem viðbót, og hugsanlega aukahluti. Þar að auki er verið að vinna að stafrænni útgáfu, í ætt við fantasy íþróttadeildir. „Við eigum líka tilbúna útgáfu af spilinu með öllum heimshöfunum undir, eins konar alheimsútgáfu.“

Stefán segir að stefnt hafi verið að útgáfu fyrir jólin. En vegna áhuga og þrýstings frá verslunum er nú verið að meta hvort útgáfan komi fyrr. Þegar séu þeir farnir að taka við forpöntunum.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu: https://www.frettabladid.is/frettir/eintok-af-spilinu-hafa-sokkid-med-skipum/