Fréttir

Boða endurkomu Hættuspilsins

Gefa á Hættuspilið út á ný en spilið hefur verið ófáanlegt eftir að hafa selst í þúsundum eintaka í kringum aldamótin.

CCP og Spilaborg hyggjast gefa Hættuspilið út á ný. Stefán Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Spilaborgar segir að forsala muni hefjast á morgun og stefnt sé að því að afhenda fyrstu eintök spilsins í byrjun desember.

Búið er að ganga frá samningum við Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson um að nýta myndefni sem þeir unnu fyrir spilið á sínum tíma.

„Það er eiginlega ekki hægt að gefa þetta út nema amma og Siggi sýra séu með,“ segir Jón Gnarr í samtali við Viðskiptablaðið. Jón segir útgáfuna mikið ánægjuefni enda hefur spilið verið ófáanlegt um langa hríð.

CCP gaf Hættuspilið út árið 1998, í árdaga fyrirtækisins og seldist í mörg þúsund eintökum. Tekjur af spilinu voru nýttar til að fjármagna vinnslu á tölvuleiknum Eve Online, en leikurinn hefur verið hryggjarstykkið í rekstri CCP alla tíð síðan.

Spilaborg gaf Útvegsspilið jafnframt út á fyrr á þessu ári, en það var fyrst gefið út árið 1977. 

Birist fyrst á vef Viðskiptablaðsins: https://www.vb.is/frettir/boda-endurkomu-haettuspilsins/164919/